+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Starfsfólk

Hjallastefnunni er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í samskiptum starfsfólks svo og í öllum samskiptum við börn og foreldra og aðra sem koma að málum skólans.

Meginregla tvö snýst um hið fullorðna fólk innan Hjallastefnuskóla. Hún setur öllu starfsfólki skýrar skorður varðandi framkomu og hegðun og er í reynd skuldbinding um að allir æfi sínar bestu hliðar; einsetji sér að verða betri manneskjur. Hér skilur oft á milli þess hvort starfsfólk finni sig innan Hjallastefnuskóla eða ekki – slík er skuldbindingin! Orsök þessarar meginreglu er hins vegar einföld; brothættar og óvarðar sálir ungra barna verðskulda ekkert nema hið besta og ógætileg hegðun hins fullorðna getur haft alvarlegar afleiðingar! Að auki er jákvæðniregla Hjallastefnunnar bæði viðurkenning á og vörn gegn þeim neikvæðu hliðum kvennamenningar sem getur náð að skjóta rótum þar sem aðeins annað kynið ræður ríkjum eins og er í starfi með ung börn.

Jákvæðni skal því grundvalla öll samskipti innan starfsmannahópsins svo og hvernig Hjallastefnukennarar birtast skjólstæðingum sínum, börnum og fjölskyldum þeirra; með jákvæðu brosi og orðum - af hlýju og kurteisi. Að auki velja Hjallastefnukennarar að sýna ávallt jákvæðni og ætla öðrum hið besta í samskiptum sínum við aðra aðila sem tengjast skólanum. Utan sem innan skóla veljum við að sýna jákvæðni og æfa glaðan hug og bjartsýni með brosi á vör.

Hluti jákvæðrar framkomu er að sýna einnig hreinskiptni og ákveðni þegar þess er þörf – en án gremju eða annarra neikvæðra og niðurbrjótandi viðhorfa. Þannig tekur hinn jákvæði kennari af festu og öryggi á málum, segir af hreinskiptni það sem segja þarf eða kemur málunum í réttan farveg.

Margir þættir í skipulagi og starfsháttum Hjallastefnuskóla eru til þess fallnir að auðvelda starfsfólki jákvæða framkomu og þar má nefna eftirfarandi:

 1. Í Hjallastefnuskólum æfa starfsmenn þá hugsun að allir beri ábyrgð á lífi sínu öllum stundum; hafi val um alla þætti og geti breytt hverju sem þeir vilja ef þeir velja að gera svo. Þannig velja allir hugsun sína, viðhorf, líðan og framkomu á hverju augnabliki og við erum einfaldlega það sem við veljum og æfum. Hjallastefnustarfið er skuldbinding um að ætla öðrum hið besta og gefa svo bæði sjálfri/um sér og öðrum hið besta á ábyrgan hátt.
 2. Allir starfsmenn gera sér far um að heilsa bæði börnum og fullorðnum með glaðlegu brosi og vingjarnlegum orðum. Allir bjóða fram aðstoð sína og leyfa öllum sem til skólans leita, að finna að hver og ein/n vill hvers manns vanda leysa. Engu máli skiptir hver á í hlut; öllum ber sama virðing og kurteisi, hvert sem erindið er. Þannig skapa starfsmenn hina hlýlegu og jákvæðu menningu sem skal einkenna alla Hjallastefnuskóla. „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt ...".
 3. Starfsmenn gera sér far um jákvæða og hlýlega orðanotkun hvort sem er í samskiptum við börnin, sín á milli eða við upplýsingagjöf til foreldra. Sérstaklega leggja starfsmenn sig fram þegar erfið mál eiga í hlut og mest reynir á hreinskiptni og heiðarleika sem settur er fram af heilindum og á jákvæðan hátt.
 4. Hjallastefnuskólar setja sér skarpar reglur um boðlega orðræðu innan skólans. Þannig er ávallt stefnt að ábyrgri og lausnamiðaðri umræðu og ekki er í boði að ræða af neikvæðni um börn, fjölskyldur þeirra eða aðra starfsmenn. Þannig vanda starfsmenn sig að segja ekki meira um samstarfsfólk en þeir myndu segja beint við viðkomandi. Sömu kurteisi og virðingar er krafist í allri annarri umræðu s.s. þjóðmálaumræðu eða skoðanatjáningu um aðra skóla og skólastefnur enda virða Hjallastefnuskólar fjölbreytni og ólíkar skoðanir.
 5. Mikið er lagt upp úr ábyrgð og hreinskiptni samhliða jákvæðri afstöðu. Þannig eru boðleiðir innan skóla skýrar og virkar enda nákvæm vinnuferli til um hvar starfsmenn geta leitað úrlausnar með erfið mál eða athugasemdir um það sem betur má fara. Slíkum athugasemdum er ávallt vel tekið enda er góður skóli ekki sá sem engin mistök gerir, heldur sá sem vill ávallt gera betur og tekur því ábendingum fagnandi.
 6. Starfsmenn gera sér far um að kjarna huga sinn og sundurgreina hvað þeim kemur við og hvað ekki. Þannig sýnir hver og ein/n störfum sínum þá virðingu að skipta sér fyrst og fremst af því sem kemur eigin starfi við og blanda sér ekki í annarra mál eða störf með skoðunum, orðum eða athöfnum nema velferð barna eða hugmyndafræði Hjallastefnunnar sé ógnað á einhvern máta. Þegar starfsmaður blandar sér í annarra málefni, eru málin rædd milliliðalaust við þann sem í hlut á eða leitað til yfirmanns sem tekur málið að sér.
 7. Allir gera sér far um að greina á milli einkalífs og hins opinbera starfsvettvangs og skilja þar á meðal eftir föngum allt eftir heima sem ekki á við í starfinu. Skólinn gerir sér þó vitaskuld far um að mæta þörfum starfsfólks af skilningi og sýna stuðning og stuðla að farsælu og auðugu einkalífi starfsmanna. Persónulegar þarfir starfsmanna mega þó aldrei ganga gegn hagsmunum skjólstæðinganna og er á ábyrgð skólastjórnanda að svo fari ekki.
 8. Hjallastefnuskólar leitast við að sýna öllum starfsmönnun fyllstu sanngirni og réttlæti og eru allir velkomnir og jafnréttháir til starfa óháð kyni, kyn- og litarþætti, trúar- og stjórnmálaskoðunum, kynhneigð, menningu eða stöðu að öðru leyti. Ef tungumálaörðugleikar hamla starfsmanni í daglegum verkum, skal skólinn eiga frumkvæði að því að finna náms- og þjálfunarleiðir fyrir viðkomandi í íslensku.
 9. Jafnræðis skal gætt gagnvart starfsmönnum á öllum sviðum; þar á meðal hvað varðar laun og önnur starfskjör, starfsframa og starfsaðstæður. Starfsmenn hafa aðgang að yfirmanni skólans með athugasemdir sínar og umkvartanir vegna allra mála og skulu ávallt leita eftir svörum eða aðstoð innan skólans áður er leitað er til annarra aðila. Allir hafa síðan áfrýjunarrétt til fulltrúa Hjallastefnunnar ef þurfa þykir sem vinnur þá að lausn málsins með yfirmanni viðkomandi skóla.
 10. Í félagslegum samskiptum einstakra starfsmanna eða starfsmannahópsins í heild utan vinnutíma gilda allar reglur Hjallastefnunnar um ábyrgð og virðingu milli fólks. Fagleg sjónarmið skulu ávallt ráða för í slíkum samskiptum fremur en persónulegar þarfir.
 11. Söngur, hreyfing og hlátur er í fyrirrúmi og gleðivekjandi starf einkennir alla skóladaga í Hjallastefnuskólum með virkri þátttöku barna og kennara. Nánar er kveðið á um jákvæðnistarfið með börnunum í kynjanámskrá Hjallastefnunnar, þ.e. í miðstigi einstaklingsþjálfunar sem snýst um þjálfun eiginleikanna jákvæðni, gleði, hreinskiptni og ákveðni.