+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Börn og foreldrar

Hjallastefnunni er ætlað að mæta hverju barni eins og það er og virða og viðurkenna ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Skólanum ber einnig að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa á víðfeðman hátt að velgengni allra.

Börn eru eins misjöfn eins og þau eru mörg – einstök hvert og eitt. Öll hafa þau skýr einstaklingseinkenni, sérstaka hæfni og áhuga og sterkan vilja. Það er grundvallaratriði fyrir farsæld þeirra að skólinn hlúi að þeim á þeirra eigin forsendum og forðist að gera sömu kröfur til allra og steypa alla í sama mót. Þar af leiðandi verður Hjallastefnuskóli að leita allra leiða í skipulagi sínu og starfsháttum til að hafa fjölbreytileg verkefni og valkosti fyrir hendi. Hjallastefnukennarar fagna fjölbreytileikanum innan barnahópsins og telja ekki eftir sér að stíga skrefinu lengra til að mæta hverju barni; minnugir þess að skólinn er til vegna barna en ekki börnin vegna skólans. Þannig snýst allt um reynslu og nám nemandans en ekki kennslu kennarans og því breyta Hjallastefnukennarar starfsháttum sínum eftir aldri, þroska og getu „sinna barna" hverju sinni.

Reglubundið gæðamat þarf að fara fram allt skólaárið til að auka líkur á að raunverulega sé unnið að því háleita marki að tryggja góða líðan, velferð og velgengni hvers barns sem skólanum er treyst fyrir. Á sama hátt verða Hjallastefnuskólar að leggja mikla áherslu á samvinnu við foreldra og fjölskyldur hvers barns til að skapa traust milli heimilis og skóla; ef skólinn nýtur ekki trausts foreldra, munu kennarar aldrei ná að skapa óskorðuð tengsl við barnið og þar af leiðandi fær barnið ekki það gæðastarf í skólanum sem það á skilið.

Meðal þeirra leiða sem Hjallastefnuskóli fer til að mæta hverjum og einum sem best eru m.a. eftirfarandi atriði:

 1. Hverju barni er mætt og heilsað á hverjum degi með jákvæðni; gleði og snertingu. Hver skóladagur einkennist af því að allt starfslið Hjallastefnuskóla notar hvert tækifæri til að sýna hverju eina og einasta barni athygli og kærleika í hlýju viðmóti, snertingu og orðalagi.
 2. Kynjaskipting er notuð til að tryggja jafnræði stúlkna og drengja og gefa báðum kynjum uppbót á þeim sviðum sem ekki tilheyra hefðbundnum kynjahlutverkum. Þannig hafa kynin farið á mis við ólíka þjálfun í samfélagi sem ekki hefur enn náð jafnréttismarkmiðum sínum.
 3. Aldursskipting í kjarna eða hópa er til að mæta jafningjaþörfum og skapa jafningjavináttu. Fastir hópar eru til að tryggja vináttu og samstöðu en vináttutengslin eru grundvallaratriði í velferð barnsins.
 4. Daglegir valfundir tryggja að ólíkur áhugi og vilji sé virtur og að barnið skynji mikilvægi sitt við skipulagningu dagsins.
 5. Þátttaka barna í skipulagningu hópatíma, áhrif á matseðlagerð og val um útivist gefur hverju barni skynjun á áhrifavaldi um aðstæður sínar.
 6. Fastur kennari/hópstjóri er heilt skólaár með sama hóp, ef unnt er, til að tryggja að hvert barn eigi sér öruggan málsvara og til að tryggja öllum börnum sérstaka athygli.
 7. Öll börn eru sérþarfabörn – en þurfi barn sérstaka aðstoð eða sérstök úrræði vegna þroskastöðu, hegðunar eða aðstæðna sinna að öðru leyti, metur skólinn með foreldrum hvernig staðið skuli að slíkri aðstoð. Engin ein leið er rétt, heldur ráða þarfir barnsins ferðinni samkvæmt mati þeirra sérfræðinga sem að málinu koma og úrslitavaldið er hjá foreldrum.
 8. Kennarar/hópstjórar fylgjast nákvæmlega með stöðu og framgangi hvers barns, skrá athuganir sínar á hverri önn á gátlista og kynna foreldrum niðurstöður sínar auk þess sem formlegt námsmat fer fram á ákveðnum sviðum.
 9. Kennarar/hópstjórar skipuleggja starf sitt með barnahópnum með skýrum námsmarkmiðum bæði aðalnámskrár og Hjallastefnunámskrár. Þeir meta og skrá starf sitt og velgengni hvers barns kerfisbundið eftir tiltekið tímabil. Foreldrum eru kynntar bæði áætlanir og niðurstöður á formlegan hátt. Fregnir af starfi og vinnu að markmiðum er kynnt foreldrum með reglubundnum hætti.
 10. Öflugt foreldra- og fjölskyldusamstarf er fyrir hendi í Hjallastefnuskólum með heimaviðtölum, fjölskyldumorgnum svo og vinnuframlagi foreldra og fjölskyldu við skólann eftir nánara samkomulagi. Að auki miðlar skólinn tugum mynda í mánuði af hverju barni í leik og starfi á læstu heimasvæði.
 11. Á hverju skólaári fer fram viðhorfakönnun meðal foreldra til að fá álit þeirra til skólans og til að leita eftir tillögum þeirra til úrbóta. Að auki hafa foreldrar greiðan aðgang að því að leggja fram athugasemdir og tillögur til skólans.
 12. Tenging þessarar meginreglu er við frumstig einstaklingsfærninnar í kynjanámskrá Hjallastefnunnar eða í þjálfun í sjálfstæði, sjálfstrausti, öryggi og tjáningu.