+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Árangur starfsins í Garðabæ

Jafnréttisuppeldi, árangur og umhyggja

Velkomin í Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum: Jafnréttisuppeldi, árangur og umhyggja

Barnaskólinn tekur í móti 5-9 ára börnum og skipulag náms og kennslu, skólahúsið og umhverfið allt er mótað með þarfir þessa unga nemendahóps í huga. Við erum skóli jafnréttis, umburðarlyndis og virðingar fyrir einstaklingum; við mætum hverju barni eins og það er. Börnin búa við gott atlæti, njóta útiveru í fögru umhverfi, heimilismatar, nálægðar og fyllstu athygli kennara og annars starfsfólks. Þá verður námið leikur einn því góð líðan og góð námsframvinda fara saman.

Rannsókn HR staðfestir góðan námsárangur

Skólinn okkar á 15 ára afmæli í vor, er orðinn reynsluríkur unglingur. Háskólinn í Reykjavík gerði rannsókn á Hjallastefnunni 2014-16 og aflaði gagna hjá foreldrum, nemendum, starfsfólki, og einkunna hjá sveitarfélögum, úr stöðluðum lestrarprófum o.fl.[1] Niðurstöður voru markverðar og nefna má “að í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði voru fyrrum nemendur BSK Vífilsstöðum með nokkuð hærri meðaleinkunnir samanborið við nemendur sem komu úr öðrum skólum Garðabæjar”. Athygli vakti líka að “mælingar tengdar innri áhugahvöt nemenda, verklagi og viðhorfi við verkefnavinnu, sýndu að fyrrum nemendur BSK Vífilsstöðum komu alls staðar betur út en jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu”. Þessar áhugaverðu og hvetjandi niðurstöður tengjum við verklagi og kennsluskipulagi sem hér er og stuðlar að því að börnin kafi í sín viðfangsefni, ljúki þeim og fagni áður en þau takast á við nýjar áskoranir. Í fjögurra vikna lotum vinnum við með félags- og tilfinningaþroska samhliða því sem börnin læra að lesa, skrifa og reikna, eru í íþróttum, sundi, ensku og fleiru. Eftir hverja lotu kemur opin vika en þá vinnum við í smiðjum og leggjum höfuðáherslu á list- og verkgreinar og skapandi starf – myndin hér með er af 8 ára börnum sem m.a. lærðu Bollywood dansa í Indlandssmiðju.

Metnaðarfullir jafnréttissinnar

Rannsókn HR sýnir líka að jafnréttisáhersla Hjallastefnunnar skilar sér í aukinni jafnréttisvitund barna og unglinga. Það birtist m.a. í að mun hærra hlutfall nemenda úrHjallastefnuskólum taldi að ef foreldrar væru báðir útivinnandi ættu þeir að sinna heimilisstörfum og fjölskyldu jafnt, samanborið við aðra nemendur á höfuðborgarsvæðinu. Í Barnaskólanum vinnum við markvisst að jafnrétti eftir kynjanámskránni okkar. Hver námslota hefur yfirskrift sem beinist að því að styrkja einstaklings- og félagsfærni barnanna. Loturnar eru agi, sjálfstæði, samskipti, jákvæðni, vinátta og áræðni. Kjörnum (bekkjum) er skipt eftir kynjum en samvinna er mikil, bæði í blöndun stúlkna og drengja og einnig í aldursblönduðum hópum.

Frábært í Frístund og Sumarskólanum

Við leggjum áherslu á góða þjónustu við foreldra. Skólinn opnar kl. 7.45 en eftir skóla er Frístund opin til kl. 17. Við leggjum metnað okkar í Frístundina, hún er alvöru, skemmtileg viðbót við skólastarfið og hana sækja 6-9 ára börn.
Sumarskólinn okkar er líka vel kynntur og nýtur stöðugt meiri vinsælda. Hann er opinn allt sumarið utan tvær vikur.

Kynningarfundur verður mánudaginn 5. mars kl. 17. Þá bjóðum við alla velkomna sem vilja kynna sér skólastarfið á 5-9 ára kjörnum. Barnaskólinn er að Vífilsstaðavegi 123 og fundurinn verður í gulklædda húsinu sem nefnt er Suðurhús.

Heimasíðan er á bskgbr.hjalli.is og þar er hægt að sækja um skólavist undir Umsóknir en einnig á minn Garðabær á gardabaer.is

Síminn er 5557710 og netfangið barnaskolinngbr@hjalli.is Ykkur er velkomið að hafa samband.

Með góðri kveðju,Kristín Jónsdóttir skólastýra


[1] Berglind Gísladóttir og Hrefna Pálsdóttir. (2016). Rannsókn á Hjallastefnunni. Unnin á vegum Háskólans í Reykjavík fyrir Hjallastefnuna, 2014-2016. Reykjavík: Háskólinn í Reykjavík.

Hér er greinin í heild sinni...