+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Umhverfi

Hjallastefnunni er ætlað að skapa samfélag innan hvers skóla þar sem jafnvægi, einfaldleiki og gagnsæi er ráðandi í dagskrá, umhverfi og búnaði og reglur eru sýnilegar og áþreifanlegar. Þannig gefst börnum skiljanlegt og viðráðanlegt umhverfi miðað við aldur þeirra, þroska og getu.

Einn grundvallarþátta Hjallastefnunnar er sú einfalda afstaða að skólastefna skuli leggja mesta áherslu á að skipuleggja og stjórna því sem hægt er að hafa áhrif á með formlegum hætti. Því setja Hjallastefnukennarar mikla orku og tíma í að ígrunda og skipuleggja notkun á öllu húsnæði og lóð skólans, kjarna umhverfi og búnað og sýna mikla nákvæmni við gerð og framkvæmd dagskrár. Mikil vinna er lögð í að skapa og viðhalda kjörnuðu umhverfi og stöðugt endurmat er í gangi til að tryggja að hver lausn sé ávallt sú besta á hverjum tíma. Með þessari skörpu og nákvæmu stýringu á öllum ytri þáttum skapar skólinn þann ramma eða umgjörð sem allt innihaldið mun litast af; þ.e. samskiptin, leikurinn, námið og kennslan mun aldrei verða betra en ramminn gefur tilefni til - en góður rammi eykur til muna líkurnar á góðu starfi. Þannig má nota stýranlega þætti til að styrkja þá óstýranlegu ef svo má að orði komast; auka líkur á jákvæðum viðhorfum, styðja við góðan vilja starfsfólks og auðvelda öllum faglegt starf.

Þaulhugsaðri stýringu umhverfisins er þannig ætlað að skapa jákvæðar afleiðingar fyrir allt skólastarfið. Það léttir öllum lífið og gerir bæði starfsfólki og börnum kleift að skilja hið daglega starf skólans, allir vita til hvers er ætlast og hvernig eigi að fara að til að ná árangri og sigrast á verkefnunum sínum stórum sem smáum.

Lykilatriði við skipulagningu skv. Hjallastefnureglum er að skapa einfalt, rósamt og áreitalítið umhverfi þar sem allt er merkingarbært og bæði börn og fullorðnir geta „lesið" sig áfram og skilið og lært á aðstæður sínar á skömmum tíma. Umhverfinu er ætlað að vera einn af hornsteinum skólastarfsins og þjóna í reynd sjálfstæðu uppeldishlutverki. Til að svo megi verða, leggur Hjallastefnustarfsfólk m.a. áherslu á eftirfarandi þætti:

 1. Starfsfólk Hjallastefnuskóla skoðar fyrirliggjandi hugmyndafræði eins og hún birtist hverju sinni í meginreglum og kynjanámskrá til að samræma viðbrögð og vinnuaðferðir sínar og til að tryggja að allir taki samstillt á árum til að bera skólaskútuna áfram.
 2. Í skólum Hjallastefnunnar er unnið með handbók skólans á reglubundinn hátt og er hún endurskoðuð af starfsmannahópnum í upphafi hvers skólaárs. Þar eru m.a. skýrar starfslýsingar til að allt starfsfólk viti nákvæmlega til hvers er ætlast og hvernig það getur náð árangri; skráð vinnuferli fyrir daglegt starf, áætlanir sem taka til tiltekinna mála s.s. viðbrögð og úrvinnsla vegna áfalla og reglur og samþykktir skólans.
 3. Nýir starfsmenn fá kennslu í handbók skólans og eru handleiddir af reyndari starfsmönnum á þeim kjarna sem viðkomandi tekur til starfa.
 4. Áhersla er lögð á valddreifingu bæði innan Hjallastefnunnar og innan hvers skóla. Öll uppbygging miðar því að sjálfbærum starfseiningum eða starfskjörnum sem hver um sig er sjálfráða í eigin málum og tekur ákvarðanir samkvæmt reglum skólans sem stjórnendur eru ábyrgir fyrir að settar séu.
 5. Afmörkun húsnæðis fyrir hvern kjarna í Hjallastefnustarfi lýtur sömu lögmálum um sjálfbærni; þ.e. að hver „eigi" sitt rými; tvær til þrjár stofur sem gefa kost á ólíkum starfs- og leikmöguleikum, eigin inngang og geymslur þar sem því verður við komið.
 6. Hvert rými og hver starfseining (kjarni, hópar) fá heiti sem er merkingarbært og hefur skýran tilgang. Stofur heita t.d. eftir starfsmöguleikum og óumdeildir þættir s.s. kyn, aldur eða stafrófsröð getur ráðið heitum. Starfsfólk forðast að skíra t.d. hópa persónulegum heitum og ef ekkert óumdeilanlegt og merkingarbært heiti finnst, er gripið í merkingarlaus heiti.
 7. Öll svæði eru kyrfilega merkt með heiti og/eða tákni. Merkingar eru settar á gólf og veggi til að sýna hvar og hvernig allt eigi að vera. Rými barna á samverusvæðum svo og umferðarreglur eru límd/máluð á gólf af nákvæmni.
 8. Allar eigur hvers starfskjarna, bæði stórar og smáar og inni sem úti, eru merktar viðkomandi kjarna. Allir hlutir eiga sinn merkta stað í skápum og hillum og er öllu viðhaldið af umhyggju og virðingu.
 9. Skreytingar skv. persónulegum smekk starfsmanna eru hvergi í Hjallastefnuskólum, heldur er umhverfið áreitalítið og þrauthugsað. Mikilvægt er að undirstrika að skólinn, hversu heimilislegur sem hann er, er aldrei staðgengill einkaheimilisins heldur eru leikskólar og grunnskólar hluti hins opinbera lífs og þar þurfa börn að læra að vera til á allt öðrum forsendum en heima. Þar gilda líka allt önnur lögmál en á einkaheimilum; þar sem börn æfa einkalíf og byggja upp tilfinninga- og tengslagrunn. Því er gagnlegt að útlit skólanna birti ekki heimilislausnir.
 10. Veggir eru auðir nema þar sem ákveðið hefur verið að gefa rými fyrir mikilvæga og tilgangsríka þætti. Sýningar barna eru hafðar uppi skamman tíma.
 11. Dagleg umhirða, snyrtimennska og tiltekt er bæði uppeldislegt atriði og einnig forsenda þess að láta umhverfið vinna með kennaranum. Þannig taka starfsfólk og börn höndum saman og viðhalda kjörnuðu umhverfi.
 12. Bæði börn og starfsfólk klæðist skólabúningum til að styrkja liðsheildina.
 13. Dagskrá skólanna er höfð í góðu jafnvægi milli þeirra tveggja starfshátta sem móta dagskrána og ganga á víxl allan daginn. Annars vegar er hópastarf og kennslu þar sem kennari/hópstjóri leiðir undirbúið og skipulagt starf og hins vegar er leiktími og val hjá börnum sem hefst ávallt með valfundi þar sem börn velja sér leiksvæði eftir einföldu og auðskiljanlegu fyrirkomulagi.
 14. Tímasetningar eru einfaldar og auðlærðar, nákvæmni er sýnd við eftirfylgd þeirra Allir dagar eru í megindráttum eins og undantekningar og tilbreyting er tengd reglu s.s. söngfundir/gleðifundir á föstudögum þannig að festa og öryggi sé í fyrirrúmi fyrir ung börn. Starfsfólk sinnir sama verki langan tíma í senn og börn læra að treysta umhverfi sínu.
 15. Tenging þessarar meginreglu er sérlega við frumstig og hástig félagslegu eiginleikanna; þ.e. virðing, hegðun, kurteisi og framkoma svo og vinátta, umhyggja, nálægð og kærleikur. Að auki tengist frumstig einstaklingsstyrkingar einnig þessari meginreglu; þ.e. sjálfstæði, sjálfstraust, öryggi og tjáning.