+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Samfélag

Hjallastefnunni er ætlað að þjálfa aga og hegðun á jákvæðan og hlýlegan en um leið ákveðinn og hreinskiptinn hátt. Með nákvæmni og festu verður taminn vilji leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla í rósemd og friði innan skólasamfélagsins og síðar til ábyrgrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Hegðunarkennsla Hjallastefnuskóla byggir á þeirri kenningu að agi sé einfaldlega að fylgja reglum sem eru þekktar, skýrar og auðskiljanlegar og er fylgt eftir af sanngjörnum og ákveðnum aðila sem er sjálfum sér samkvæmur við eftirfylgdina. Með síendurteknum æfingum; beinni þjálfun í góðri hegðun í öguðu umhverfi fær barnið reynslu og hæfni sem það yfirfærir í sjálfsaga og þar með öðlast barnið vald yfir aðstæðum sínum – það getur stjórnað sér sjálft! Slík þjálfun er grundvallaratriði fyrir tilvist í samfélagi þar sem ábyrg framkoma og þátttaka allra eftir réttum leikreglum grundvalla raunverulegt lýðræði.

Agi gefur öllum börnum öryggi og tryggir rétt allra. Agi gefur einnig frelsi því í öguðu skólaumhverfi gefst kennurum kostur á að sleppa tökunum og stjórninni þegar það á við og gefa þá nemendum sínum lausan tauminn sem áfram þjálfar sjálfsaga. Að auki gefur agi rósemd og frið og minnkar öllu betur hættu á spennu, streitu og ótta sem veldur ofbeldi og einelti.

Hegðunarkennsla verður að vera heiðarleg og krefur kennara um myndugleika til að valda nemendastjórnun af festu og ákveðni en um leið af jákvæðni og umhyggju. Allt annað eru svik við börn sem eru á félagslegu næmiskeiði og þarfnast þess að æfa og temja vilja sinn; þann frumkraft sem þau koma með í farteskinu til að takast á við lífið. Slík tamning er forsenda þess að viljinn nýtist þeim sem jákvæður drifkraftur í stað þess að vaxa villt yfir höfuð þeim í valdaátökum við umhverfi sitt þar sem hinn fullorðni axlar ekki ábyrgð á hlutverki sínu eða að vilji barns sé brotinn með ofstjórnun eða harkalegu viðmóti og barnið fær því ekki að þjálfa jákvæða viljabeitingu undir ákveðinni en jákvæðri handleiðslu.

Hegðunarkennsla Hjallastefnuskóla felst m.a. í eftirtöldum þáttum:

 1. Megináhersla í starfsháttum felst í að fyrirbyggja ágreining og koma í veg fyrir hegðunarslys. Efniviður er þannig settur fram að annað hvort sé nægilegt magn fyrir alla eða að auðvelt sé að skiptast á til að auka líkurnar á að öllum takist að ráða við aðstæður sínar. Þær stundir dagsins eða aðstæður sem skapa erfiðleika, eru endurskoðaðar og breytt eftir ígrundun og kjörnun á eðli vandans þar til góður árangur fæst.
 2. Skýrar reglur gilda um umgengi og samskipti. Sumar reglur eru fastareglur sem ber að fylgja og gegna, aðrar reglur eru settar í samvinnu fullorðinna og barna og ræddar og lærðar. Reglum má breyta og kjarnar æfa með eldri börnum hvernig það er gert og leita kerfisbundið eftir áliti barnanna á réttlæti og réttmæti reglnanna.
 3. Hjallastefnukennarar styrkja jákvæða hegðun og framkomu barna á afgerandi hátt með hrósi og með að beina athygli að öllu sem tekst og gengur vel. Í þessu skyni koma kennarar sér upp hugtakasafni fallegra hrósorða og uppörvandi orðatiltaka (sjá um jákvæðni í kynjanámskrá). Jafnhliða er snerting notuð til að gefa hin jákvæðu skilaboð þegar vel gengur.
 4. Kennarar bregðast hratt og heiðarlega við öllum reglubrotum með skýrum skilaboðum og viðeigandi aðgerðum; allt frá áþreifanlegum skilaboðum til einstakra barna yfir í umræður og svo breytingar á þeim aðstæðum sem leiddu af sér hegðunarmistök viðkomandi.
 5. Ef beita þarf viðurlögum er barn aldrei sett eitt á einhvern stað, heldur tekur kennarinn á málum með barninu. Ef beita þarf sömu viðurlögum margsinnis, eru það skilaboð um að aðferðin hafi ekki virkað og ber þá að gaumgæfa málið að nýju og finna aðrar og árangursríkari leiðir.
 6. Ekki segja ekki! Kennarar forðast hin hamlandi "ekki" skilaboð sem beina athyglinni að mistökum og þjálfa sig þess í stað í að gefa skýr skilaboð um allt sem á að gera og gerast og athyglin er því á sigrum og tækifærum.
 7. Ytri umgjörð og starfsrammi Hjallastefnuskóla er hegðunarþjálfun. Allt umhverfi sýnir greinilega hvar húsgögn, leikefni og smáhlutir eiga að vera. Þannig er merkt á gólfum á áþreifanlegan hátt hvar allur búnaður á að vera frá hinu smæsta til hins stærsta. Svæði eru afmörkuð og meira að segja leikrými hvers barns við borð ef á þarf að halda. Skápar eru kjarnaðir og þaulmerktir að innan sem utan. Allir hlutir, smáir sem stórir eru merktir eiganda og eiga sinn stað, merktan hlutunum sínum.
 8. Sömu aðferðir eru nýttar til að sýna hvaða hegðunar er krafist og hvernig börn geta fylgt hinum sýnilegu og áþreifanlegu umferðarreglum í skólasamfélaginu. Umferðarörvar sem sýna hægri umferð eru á gólfum, á samverusvæðum barna er límd eða máluð merkt rými fyrir hvert barn og biðpláss eru sett á svæði þar sem börn safnast saman á skiptitímum.
 9. Kennarar stýra umferð barna um skólann og eru raðir af fjölbreytilegri gerð nýttar til að tryggja agaðar og hljóðlátar aðferðir til að komast frá einum stað til annars. Kennarar hvika ekki frá barnahópi sínum, hvort sem í hlut á hópastarf eða leiktímaumsjón inni eða úti.
 10. Við nemendastýringu beita kennarar gjarnan vali til að forðast bein átök við vilja barna og þá sérlega á sviðum sem Hjallastefnan metur innan mannhelgi hvers barns. Þannig er vilji barna aldrei þvingaður varðandi t.d. mat eða klæðnað en vali beitt sem millileið.
 11. Í dagskrá hvers Hjallastefnuskóla er daglegt val reglubundið yfir starfsdaginn. Þar fá börn á öllum aldri tækifæri til að æfa viljann og ákveða leiki eða nám fyrir næstu starfseininguna. Valið fer fram á valfundi þar sem þau æfa þrjú grundavallaratriði; að vita vilja sinn, koma honum á framfæri á jákvæðan hátt og loks að taka mótlæti ef þau komast ekki að í þetta skiptið og þurfa að velja annan kost.
 12. Kennarar leita álits barna á starfi skólans; m.a. taka börnin þátt í að móta áætlun fyrir starf í hópatímum og eins er þeim boðið að hafa áhrif á matseðlagerð eða koma athugasemdum á framfæri um starfsemina. Eins er leitað reglulega eftir að þau tjái líðan sína og álit á skólanum; t.d. hvernig þeim gekk með samskiptin á valtíma eða hvernig þeim leið þegar þau komu í skólann.