+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Náttúra

Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum að skynja og njóta náttúrulegs umhverfis og virða náttúruna með nýtni, nægjusemi og hófsemi svo og með umhirðu og endurvinnslu.

Í öllum Hjallastefnuskólum er útistarf og útikennsla í hávegum og sérlega er sótt í ósnortna náttúru þar sem því er viðkomið. Möguleikar í inniveru barna eru alltaf takmarkaðir af skömmtuðu rými byggingarinnar en úti er ekkert sem takmarkar nema himinhvolfið sjálft. Því ber að forðast háar girðingar sem takmarka útsýnið. Grundvallaratriði þessarar meginreglu er að börn njóti þess að vera úti og skynji árstíðir og veðurfar, gróður og dýralíf og uppgötvi þannig þá einstöku fegurð sem náttúran sjálf skapar. Jafnframt njóta þau friðarins og þess samhljóms sem því fylgir að vera í snertingu við mold og gras, vatn og grjót!

Í Hjallastefnuskólum er lögð áhersla á náttúrulegan efnivið, þeir hlutir sem börnin vinna með, eru að mestu úr náttúrulegum efnum og allir litir innan dyra eru mildir jarðarlitir. Allir kjarnar og skólar taka sitt nánasta umhverfi í fóstur og annast bæði umhirðu og ræktun. Af virðingu við náttúruna þjálfa skólarnir svo hófsemi og nægjusemi og láta sér duga lítið og læra að una við sitt. Grasið er ekki grænna „hinum megin" og öllum er hollt að láta sig vanta eitthvað og láta á móti sér öðru hvoru. Nægjusemin eykur því einbeitingu og minnkar spennu og væntingar. Endurvinnsla er svo hluti af námskrá hvers skóla, í mismiklum mæli eftir aðstæðum á hverjum stað.

Meðal annarra starfsþátta sem styðja þessa meginreglu, má nefna eftirfarandi:

 1. Gert er ráð fyrir útikennslu og útistarfi í dagskrám allra skóla og kjarna. Annars vegar er frjálst val barna um að nýta leiktímann sinn úti til að skapa jákvætt viðhorf gagnvart útileikjum og hins vegar er skipulagt hópastarf reglubundið í hverri viku; allt frá daglega til 2-3 í viku.
 2. Tryggt er að aldrei séu margir á útisvæði skóla hverju sinni með takmörkun þess fjölda sem getur valið útisvæði í senn. Þannig skapast gott rými fyrir alla sem dregur úr hættu á átökum og öðrum erfiðleikum í samskiptum.
 3. Áhersla er lögð á að hver kjarni og hópur eigni sér sína staði á útisvæðum og í nágrenni skóla. Þar má nefna stefnumóta- og leyndarmálastaði svo og svæði sem eru tekin í fóstur til umhirðu; ruslatínslu, reita arfa, planta gróðri o.s.fr.
 4. Kennarar sýna skapandi vinnubrögð til að fá sem mesta fjölbreytni í útistarf. Útieldun og nestisferðir, leiksvæði flutt út á góðum dögum og húsa- og bílaþvottur og gluggaþrif gæða útistarfið nýjum möguleikum.
 5. Gróðurræktun fer fram á svæðum sem eru afmörkuð frá leiksvæðum á tryggilegan hátt til að allt leiksvæðið sé ávallt heimilt til leikja og bönn ríki ekki á leiksvæði.
 6. Áhöld til útiverka og ræktunar eru hluti af efnivið til hópastarfs.
 7. Hófsemi er aðalsmerki Hjallastefnustarfs; hlutamagni er stillt í hóf og innkaup eru gerð að vandlega ígrunduðu máli. Gert er við gamla hluti fremur en að kaupa nýja.
 8. Efniviður úr náttúrulegum og/eða endurvinnanlegum vörum er ávallt valinn þar sem því verður við komið.
 9. Vandlega er gætt að því að leikefni, litir og föndurvörur séu vistvæn að öllu leyti; framleidd úr völdum og öruggum efnum og innihaldi ekki varasöm efni að neinu leyti. Einnig er leitast við að kaupa vörur unnar í heimalandi eða landshluta skólans og athugað er að framleiðsluaðferðir uppfylli ströngustu reglur um mannúðleg framleiðsluferli.
 10. Öll mötuneyti sem framleiða mat fyrir Hjallastefnuskóla, hvort sem þau eru staðsett innan skóla eða ekki, lúta ströngum reglum og stöðlum um gæði matar. Þar má nefna skýr ákvæði um notkun aukaefna, takmörkun fitu og hlut trefja og grænmetis í fæðu barna og eru manneldissjónarmið Lýðheilsustöðvar leiðarljós mötuneyta okkar.
 11. Að venju tengjast allir námsþættir kynjanámskrár þessari meginreglu en sérstaklega þjálfast hástig félagslegra eiginleika vel; þ.e. vinátta, umhyggja, nálægð og kærleikur en einnig hástig einstaklingseiginleikanna; kjarkur, kraftur, virkni og frumkvæði.