+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Efniviður

Hjallastefnunni er ætlað að bjóða upp á leikefnivið og einföld námsgögn þar sem sköpun og ímyndun er í fyrirrúmi í fjölbreyttri reynslu hvers barns. Þannig skapar sjálfbjarga fólk eigið nám og leikheim með eigin lausnum og raunveruleikatengd verkefni eru í fyrirrúmi.

Leikefni og námsgögn þjóna sjálfstæðu uppeldishlutverki í lífi allra barna. Í þeirri gnótt leikfanga, barnabóka og barnatónlistar sem ríkir í öllum barnaherbergjum, fara Hjallastefnuskólar aðrar leiðir og bjóða upp á efnivið sem er viðbót við uppeldi einkaheimilanna. Þannig eru engin hefðbundin leikföng fyrir hendi, heldur er lögð áhersla á svonefnt leikefni eða efnivið sem nota má á hvern þann hátt sem leikendur kjósa hverju sinni. Leikföngin verða þá spennandi og eftirsóknarverð heima við enda hafa þau margháttað gildi fyrir þroska barna og heildarreynsla barna heima og í leikskólanum styður við ólíkar hliðar persónuþroskans.

Leikefni Hjallastefnuskóla hvetur til virkjunar ímyndunaraflsins og skapandi hugsunar. Börnin hljóta dýrmæta reynslu í að treysta á eigin hugarflug og eigin getu en ekki aðeins á verksmiðjuframleidda hluti. Leikir með hefðbundin leikföng og barnahandavinnu ýta í mörgum tilvikum undir getu barna til að leita að lausn sem er fólgin í hlutnum sjálfum og hefur verið úthugsuð fyrirfram. Það er ekki síður mikilvægt fyrir börn að öðlast reynslu í þeirri frumkvöðlahugsun að engin ein lausn sé til og að þeirra sé að skapa hvað sem er úr hinum einfalda efnivið skólans.

Leikefnið hamlar gegn samkeppni þar sem engir spennandi hlutir eru til að takast á um og eins minnkar samanburðarhyggjan þegar leikið og unnið er með efnivið sem hefur enga eina útkomu. Leikefni hvetur einnig til samskipta og samleiks og hentar því afskaplega vel í barnahópum.

Hin lausnamiðaða hugsun sem felst í notkun leikefnis og óbundins efniviðar tekur einnig til námsgagna barna og kennara. Þjálfun í að bjarga sér sjálf/ur og bíða ekki eftir að einhver komi og bjargi málum styður börn til sjálfstæðis og trúar á eigin getu.Sköpun eigin verka gefur sjálfstraust og löngun til að prófa og reyna og tilraunastarfinu fylgir aukinn kjarkur til að taka mistökum og æfa sig bara meira og meira.

Meðal starfshátta Hjallastefnuskóla á sviði sköpunar og ímyndunar má nefna eftirfarandi:

 1. Leikefni fyrir leiktíma barnanna er eingöngu efniviður sem þau geta bjargað sér með sjálf án aðstoðar kennara. Þannig eykst trú þeirra á eigin getu og hæfni og slíkt leikefni styður við þroska þeirra til sjálfstrausts og sjálfstæðis.
 2. Stærstur hluti svonefnds fastaleikefnis er með þeim hætti að hægt sé að nota það á mjög fjölbreytilegan hátt og að hvorki sé búið að úthugsa notkun né útkomu leiksins fyrirfram til að forðast að styrkja hugmyndir um fyrirframgefnar lausnir. Þannig eru m.a. kubbar, dýnur og púðar, heimagerður leir, einföld gögn til myndiðkunar svo og áhöld til útileikja meðal leikefnis leikskóla Hjallastefnunnar. Í barnaskólum Hjallastefnunnar bætast við flóknari leikjakostir auk áhalda til fjölbreyttrar myndiðkunar, smíða og sauma svo og heimagerðra spila.
 3. Ítarefni fyrir leiktíma eru viðbótaráhöld og nýr efniviður sem auðga reynslu barnsins hvað varðar skynjun, snertingu, nýsköpun og þróun, bæði einstaklingslega og í samskiptum. Hver skóli tryggir fjölbreytni í framlögn og notkun ítarefnis á hverju leiksvæði svo og gott aðgengi eldri barna að nýju og fersku ítarefni til að tryggja lifandi og skapandi leiktíma.
 4. Leikefni Hjallastefnuskóla er af skornum skammti skv. þeirri hugmynd að „minna geti verið meira". Hlutamagn er þannig valið að annað hvort sé mjög auðvelt að skipta því jafnt milli leikþátttakanda eða þá að magnið útheimti að skiptast á af sanngirni.
 5. Hinn einfaldi efniviður og reglan um hófsemi og nægjusemi gerir miklar kröfur um umgengni og viðhald bæði barna og kennara til að tryggja að skólinn sé ávallt réttu megin við strikið með hið þaulhugsaða leikefni með allri þeirri reynslu sem börnin þarfnast.
 6. Öllum börnum er ávallt heimilt að koma með leikföng og bækur að heiman til að sýna vinum og vinkonum og kennarar stjórna notkun þess og geymslu yfir skóladaginn. Þannig tengja börnin heimili sitt og einkalíf við skólann.
 7. Efniviður fyrir hópastarf eða kennslustarfs kennara fer eftir þeim verkefnum sem aldur barnanna krefst og sem skólinn leggur áherslu á hverju sinni. Sömu reglur eru í fyrirrúmi fyrir bæði börn og kennara hvað varðar skapandi starf. Þannig þurfa kennarar að sýna frumlega hugsun og vera fyrirmynd barna í að skapa starfið úr einföldum efnivið.
 8. Kennarinn er í starfi sínu af lífi og sál; tekur þátt í öllum verkum með börnum og lætur ávallt áhuga og gleði barna ráða för þó svo það kosti breytingar á áður skipulögðum áætlunum.
 9. Valin verkefni í hópatímum eru raunveruleikatengd og alvöru verkefni fyrir skólann, heimilin eða umhverfið. Þannig valdeflast þau til að hafa áhrif á umhverfi sitt.
 10. Notkun bóka er ígrunduð vandlega. Hefðbundnar barnabækur eru ekki keyptar í Hjallastefnuskólum nema þá sem lesefni á barnaskólastiginu. Námsbækur á því stigi eru valdar af kostgæfni og eru aðeins notaðar að hluta til í kennslustarfinu. Lestur úr myndabókum fyrir börn er ekki iðkaður á hefðbundinn hátt, heldur er áhersla á þulur, ljóð og sögur; bæði ævintýri, þjóðsögur og barnasögur. Með þessu móti rækta Hjallastefnuskólar hina þjóðlegu sagnaarfleifð og gefa einnig börnum kost á að rækta ímyndunarafl sitt þar sem ekki er búið að túlka söguna með annarra myndum. Einnig er áhersla á spunasögur barna og kennara og eigin sögur hvers barns. Heimagerðar bækur eru mikið notaðar, bæði bækur einstakra barna svo og myndabækur úr umhverfi leikskólans fyrir yngri börnin. Kennarar gera sér hins vegar far um að heimsækja bókasöfn með hópum sínum og gefa börnum þar með kost á að æfa virðingu fyrir bókum og bóklestri svo og skynja og uppgötva undraheim bókanna. Eins eru Hjallastefnuforeldrar hvattir til að lesa fyrir börn sín á hverju kvöldi.
 11. Söngur er í hávegum hafður í öllum Hjallastefnuskólum og fjölbreytileg ljóð og vísur á góðri íslensku eru í fyrirrúmi. Fjölbreytni er einnig í fyrirrúmi í tónlist og er klassísk tónlist, heimstónlist og svo íslenskur tónlistararfur í fyrirrúmi fremur en barnadægurlög. Vandað er til tónlistarnotkunar og ekki höfð síbyljutónlist sem bakgrunnur. Skynjun barna og upplifun á tónlist er studd með heimsóknum tónlistarfólks við valin tækifæri.
 12. Þessi meginregla eins og aðrar skerpir kynjanámskránni og þá sérlega frumstig einstaklingseiginleika; sjálfstæði, sjálfstraust, sjálfsvitund og tjáning svo og frumstig félagseiginleika; virðing, hegðun, kurteisi og framkoma.