+354 555 7020, hjallastefnan@hjalli.is

Hjallastefnan ehf

Hjallamiðstöðin

Vífilsstaðavegi 123, 210 Garðabær
Sími: 555-7020
Netfang: hjallastefnan(hjá)hjalli.is
Framkvæmdastjóri: Margrét Pála Ólafsdóttir

Hjallastefnan ehf er framsækið menntafyrirtæki í eigu áhugafólks um skólastarf. Fyrirtækið var stofnað af Margréti Pálu Ólafsdóttur árið 2000 til þess að standa fyrir rekstri leikskólans Hjalla í Hafnarfirði á grundvelli þjónustusamnings en Margrét Pála hafði þá verið leikskólastjóri á Hjalla í áratug og þróað þar kenningar og námskrá Hjallastefnunnar. Leikskólum í rekstri Hjallastefnunnar hefur fjölgað í gegn um árin frá því Hjalli var tekinn í þjónusturekstur. Árið 2003 fór Hjallastefnan upp á grunnskólastig með stofnun Barnaskólans í Garðabæ á Vífilsstöðum.

Skólar Hjallastefnunnar starfa ákaflega sjálfstætt undir stjórn síns leik- eða grunnskólastjóra sem hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á daglegum rekstri skólans. Þannig hefur hver skóli sitt eigið andrúmsloft og sína eigin menningu en allir starfa þeir þó að sameiginlegu markmiði og eftir sömu námskrá sem liggur til grundvallar öllum þáttum fagstarfsins.

Drifkrafturinn í rekstri Hjallastefnunnar er sú skólahugsjón sem allt starf Hjallastefnunnar byggir á. Starfsfólk fyrirtækisins trúir því staðfastlega að starf þeirra skipti miklu máli og að það eigi með vinnu sinni þátt í því að skapa betri framtíð fyrir börn þessa lands. Jafnréttisuppeldi, jákvæðni, agi, skapandi hugsun, félagsþjálfun og einstaklingsstyrking eru innviðir í námskrá Hjallastefunnar sem við teljum að geti skipt sköpum í þroska þeirra einstaklinga sem okkur er treyst fyrir. Einnig er trú okkar að öflugt fyrirtæki í sjálfstæðum skólarekstri geti skapað nýjungar og unnið að tilraunaverkefnum sem veiti hinu opinbera kerfi nauðsynlegt og tímabært aðhald í því að efla fagstarf sitt og þjónustu – öllum börnum til hagsbóta.